Hörð keppni í þríþrautinni

9. júlí 2015 kl. 10:26 Hákon og Rúnar Hákon og Rúnar

Tvö stór þríþrautarmót fóru fram nýlega. Annarsvegar íslandsmótið í olympískri þríþraut sem fór fram á Laugarvatni (1500m sund, 40km hjól og 10 km hlaup) og svo íslandsmótið í hálfum járnmanni (1900m sund, 90km hjól og 21,1km hlaup) sem fór fram í Hafnarfirði um síðustu helgi. Í báðum keppnum var mjög hörð keppni í karlaflokki á milli Rúnars og Hákonar sem eru báðir í Trek liðinu.

Á Laugarvatni syntu þeir hlið við hlið báða sundhringina og komu saman inn á skiptisvæðið. Rúnar var aðeins ringlaður eftir sundið og var örlítið lengur að koma sér á hjólið en Hákon. Þeir hjóluðu nánast á sama tíma og einungis munaði 18 sek á þeim þegar hlaupið byrjaði. Rúnar rann í lausamöl í byrjun hlaupsins og missti aðeins tempó og svo fór að Hákon hljóp á 35:43 en Rúnar á 36:14. Heildartími Hákonar var 2:02:09 og Rúnar var 49 sek á eftir í 2. sæti. Margrét Páls sem keppir fyrir Örninn-Trek varð 7. í kvennaflokki á tímanum 2:52:50 og hjólaði hún best allra kvenna á Trek þríþrautarhjólinu sínu.

Í Hafnarfirði var um hreint einvígi á milli Rúnars og Hákonar að ræða. Þeir syntu saman á braut og skiptust á að vera á undan hvor öðrum. Hákon var 14 sek fljótari á skiptisvæðinu (T1) en sá munur fólst í því að Rúnar fór í sokka en Hákon geymdi það fyrir hlaupið. Hákon náði um 90 sek forskoti á hjólinu á fyrstu 45km sem Rúnar náði síðan að halda í og minnka aðeins undir lokin. Hjólatími þeirra var sá hraðasti sem sést hefur á þessari vegalengd en báðir héldu yfir 40km hraða á klukkustund en þeir hafa neitað að gefa upp meðalwöttin en spekingarnir eru að tala um 300+ í meðalvött. Hákon var síðan ansi lengi á skiptisvæðinu (T2) og þegar Rúnar byrjaði hlaupið var forysta Hákonar aðeins 64 sek og hálft maraþon eftir. Hlaupnar voru fjórar ferðir upp og niður Vallarhverfið og Rúnar saxaði 20 sek af forystunni í fyrstu ferð og forskot Hákonar því komið niður í 44 sek. Rúnar tók síðan 11 og 12 sek í næstu tveimur ferðum og forskotið því aðeins 21 sek fyrir síðustu ferð (5,3km). Rúnar náði að minnka það hressilega en komst síðan ekki nær Hákoni en ca 10 sek og Hákon kom í mark á tímanum 4:02:22 og Rúnar 10 sek á eftir. Tími þeirra dugar á topp 10 í meðal sterkum atvinnumannakeppnum erlendis. Tími Rúnars í hlaupinu var 1:17:52 sem er tími sem dugar inn á topp 10 lista yfir ársbesta tíma í hálfu maraþoni á Íslandi (án þess að synda og hjóla á undan). Margrét Páls stóð sig einnig vel í þessari keppni en hún náði 3. sæti á tímanum 5:28:54 en hún mun keppa í heilum járnmanni í Barcelona í oktober.

14. sep 2016 Nagladekk
14. sep 2016 Tækin komin.
22. mar 2016 Opnunartími yfir páskana
29. feb 2016 Trainer tilboð!
7. jan 2016 Trainerdagar!
23. nóv 2015 Forsala 2016
4. nóv 2015 Lagersala!
29. okt 2015 Nóg til af trainerum!
27. sep 2015 Nagladekkin komin
28. ágú 2015 Fullt hús úr tímakeppnum sumarsins!
17. ágú 2015 Skólatilboð!
29. júl 2015 Lokað 1. ágúst
23. júl 2015 Endurkoma Hafsteins
16. júl 2015 Skýrsla úr Gullhringnum
9. júl 2015 Hörð keppni í þríþrautinni